English Icelandic
Birt: 2021-04-27 17:31:29 CEST
Síminn hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Síminn hf. - Viðburðaríkur ársfjórðungur

Helstu niðurstöður úr rekstri á 1F 2021

Í desember undirrituðu Síminn hf. og Crayon Group AS skuldbindandi samning um sölu Símans hf. á dótturfélaginu Sensa ehf. til Crayon.  Uppgjör viðskiptanna átti sér stað í lok 1F 2021 og er kaupverðið að fullu greitt í apríl.  Hagnaður af sölunni nam 2.073 m.kr.  Í árshlutareikningi fellur rekstur Sensa undir aflagða starfsemi og taka upplýsingar í tilkynningunni mið af þeirri breytingu.

  • Tekjur á fyrsta ársfjórðungi (1F) 2021 námu 6.408 m.kr. samanborið við 6.309 m.kr. á sama tímabili 2020 og hækka því um 99 m.kr. eða 1,6%.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA nam 2.540 m.kr. á 1F 2021 samanborið við 2.638 m.kr. á sama tímabili 2020 og lækkar því um 98 m.kr. eða 3,7% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 39,6% fyrir fyrsta ársfjórðung 2021 en var 41,8% á sama tímabili 2020.  Rekstrarhagnaður EBIT lækkar um 69 m.kr eða 5,8% frá sama tímabili í fyrra.
  • Hagnaður á 1F 2021 nam 2.844 m.kr. samanborið við 762 m.kr. á sama tímabili 2020.
  • Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 3.010 m.kr. á 1F 2021 en var 3.380 m.kr. á sama tímabili 2020. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 2.574 m.kr. á 1F 2021 en var 3.045 m.kr. á sama tímabili 2020.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 16,0 ma.kr. í lok 1F 2021 en voru 15,9 ma.kr. í árslok 2020. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 15,3 ma.kr. í lok 1F 2021 samanborið við 15,2 ma.kr. í árslok 2020.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 187 m.kr. á 1F 2021 en voru 233 m.kr. á sama tímabili 2020. Fjármagnsgjöld námu 202 m.kr., fjármunatekjur voru 59 m.kr. og gengistap var 44 m.kr.
  • Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 59,8% í lok 1F 2021 og eigið fé 39,4 ma.kr.

Orri Hauksson, forstjóri:

„Árið fer ágætlega af stað og rímar við væntingar okkar um að ná sem mestu út úr efnahag og rekstri ólíkra eininga innan samstæðunnar. Þannig lauk sölu Sensa farsællega með kaupum alþjóðlega upplýsingatæknifyrirtækisins Crayon á félaginu auk þess sem lykilverkefni á sviði farsíma- og netrekstrar Símans voru flutt til Mílu. Samstæðan er nú fjármögnuð með nýjum hætti, í því augnamiði að hámarka afrakstur af breyttri verkaskiptingu innan samstæðu og til að stilla efnahag upp í samræmi við þarfir viðkomandi rekstrareininga. Í byrjun apríl greiddi félagið verulega fjármuni til hluthafa með niðurfærslu hlutafjár og arðgreiðslu.

Grunnreksturinn var vel ásættanlegur á fyrsta fjórðungi 2021 og í takti við fyrirætlanir. Reikitekjur lækkuðu umtalsvert miðað við fyrra ár og erlendur kostnaður samstæðunnar jókst milli ára, sem veldur lítilsháttar lækkun EBIT og EBITDA milli ára, en fyrsti fjórðungur 2020 var einn sá besti í sögu félagsins. Heildartekjur jukust hins vegar, meðal annars vegna aukinnar búnaðarsölu, sem ber lága framlegð. Nettó hagnaður jókst milli tímabila vegna söluhagnaðar á Sensa, en að auki kemur nú til góða að ráðist var í varanlegar kostnaðarlækkanir um vorið 2020 sem koma að fullu fram á þessu ári.

Rekstur það sem af er ári gefur þannig góð fyrirheit. Tekjur af auglýsingasölu aukast vegna breyttrar og sérsniðinnar þjónustu Símans við auglýsendur, sem kunna vel að meta hvernig sífellt verður auðveldara að ná til vel skilgreindra markhópa. Hefðbundið línulegt sjónvarp fékk vind í seglin þegar tónlistarþættirnir Heima með Helga slógu öll áhorfsmet. Internet, sjónvarp og innlendur farsími héldu sínu striki í tekjum talið og vel hefur gengið að innleiða stóra nýja viðskiptavina í þjónustu hjá Símanum þrátt fyrir samkomutakmarkanir.

Áhersla Mílu var sem fyrr á ljósleiðaravæðingu um allt land. Heldur hefur hægt á framkvæmdum, sé miðað við risavaxið átak fyrri ára. Þeim heimilum landsins fækkar sífellt sem ekki hafa ljósleiðara í kjallara eða útvegg húss síns, hvort sem er frá Mílu eða öðrum aðilum. Fjölmargir þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni eru þó enn eftir og ekki liggur fyrir hvenær þeim framkvæmdum getur lokið. Lagning ljóss í þau hús sem eftir eru byggist víða á samstarfi Mílu við aðra framkvæmdaraðila og sveitarfélög, þannig að kostnaður í dreifbyggðum kjörnum úti um land komi ekki í veg fyrir að lokið sé að tengja til heimila og fyrirtækja.

Jarðskjálftahrina og eldgos á Reykjanesi kölluðu á margvíslegar ráðstafanir til að tryggja öryggi fólks og fjarskipta. Tengja þurfti nýja fjarskiptastaði, koma fyrir nýjum farsímasendum og endurhugsa varnir fyrir grunnstrengi á suðurströnd Íslands. Allt gekk þetta vel í góðri samvinnu við önnur fjarskiptafélög undir handleiðslu Neyðarlínunnar. Næstu verkefni Símans eru að virkja nýja og endurbætta sjónvarpsþjónustu, sem mun auka til muna sveigjanleika fyrir viðskiptavini.

Eins og ítarlega hefur áður komið fram hefur undanfarin misseri verið unnið markvisst að því að auka sjálfstæði Mílu innan samstæðu Símans, meðal annars með fyrrgreindum tilflutningi verkefna og breytinganna sem gerðar hafa verið á fjármögnun félagsins. Mikil og ör þróun hefur átt sér stað síðustu misserin á samsetningu fjarskiptafélaga á alþjóðamörkuðum. Innlendir og erlendir fjárfestar sýna þannig aukinn áhuga á sérhæfingu í fjárfestingum, meðal annars með því að innviðaeignir séu aðskildar frá þjónustufélögum í smásölu. Fjárfestingabankinn Lazard ásamt Íslandsbanka hafa nú verið ráðnir til að ráðleggja um stefnumarkmið og framtíðarmöguleika Mílu. Valkostir er varða framtíðar eignarhald á Mílu verða kannaðir með það að augnamiði að hámarka verðmæti eigna Símans fyrir hluthafa og að tryggja að framtíðarþróun innviða samstæðunnar verði hagfelld fyrir íslenskan almenning. Ekki liggur fyrir til hvaða niðurstöðu þetta verkefni mun leiða en nánar verður upplýst um framvindu þess um leið og ástæða er til.“


Kynningarfundur 28. apríl 2021

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 28. apríl kl. 8:30. Fundurinn verður eingöngu rafrænn og munu Orri Hauksson forstjóri og Óskar Hauksson fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins og svara fyrirspurnum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast í fréttakerfi Nasdaq Iceland og á heimasíðu Símans https://www.siminn.is/umsimann/uppgjor

Hægt verður að fylgjast með fundinum í netstreymi á vefslóðinni https://www.siminn.is/fjarfestakynning

Þeir sem vilja bera upp spurningar geta sent þær á fjarfestatengsl@siminn.is og verður þeim svarað í lok fundarins.


Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550 6003 (orri@siminn.is)

Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans, s. 550 6003 (oskarh@siminn.is)

Viðhengi



Siminn hf. - Afkomutilkynning 1F 2021.pdf
Siminn hf. - Arshlutareikningur samstu 1F 2021.pdf
Siminn hf. - Fjarfestakynning 1F 2021.pdf