English Icelandic
Birt: 2021-03-16 20:48:00 CET
Arion banki hf.
Niðurstöður hluthafafundar

Aðalfundur Arion banka 2021

Aðalfundur Arion banka 2021 var haldinn í dag, þriðjudaginn 16. mars, með rafrænum hætti. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf þar sem Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður, flutti skýrslu stjórnar og Benedikt Gíslason, bankastjóri, fór yfir starfsemi og afkomu bankans á árinu 2020. Ársreikningur bankans var samþykktur sem og tillaga um greiðslu arðs að upphæð um 2,99 milljarða króna. Samþykktar voru orðalagsbreytingar til einföldunar á samþykktum bankans og ákvað fundurinn að Deloitte ehf. gegni áfram hlutverki sínu sem endurskoðandi Arion banka.

Á fundinum voru eftirfarandi aðilar endurkjörnir í stjórn í samræmi við tillögu tilnefningarnefndar: Brynjólfur Bjarnason, Gunnar Sturluson, Liv Fiksdahl, Paul Richard Horner, og Steinunn Kristín Þórðardóttir. Eru stjórnarmenn nú fimm í stað sjö áður að tillögu tilnefningarnefndar. Brynjólfur Bjarnason var endurkjörinn formaður stjórnar og Paul Richard Horner kjörinn varaformaður. Herdís Dröfn Fjeldsted og Renier Lemmens fara úr stjórn og voru þeim færðar þakkir fyrir góð störf í þágu bankans. Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir og Þröstur Ríkharðsson voru endurkjörin varamenn í stjórn. Breytingar voru gerðar á launum þeirra stjórnarmanna sem búsettir eru erlendis. Þeir fá ekki lengur tvöföld laun á við aðra stjórnarmenn en fá hins vegar aukalega 300.000 króna greiðslu fyrir hvern fund sem þeir sækja í eigin persónu og kalla á ferðalög til landsins. Laun stjórnarmanna sem búsettir eru hér á landi verða óbreytt. Laun til nefndarmanna í tilnefningarnefnd bankans verða einnig óbreytt. Í tilnefningarnefnd bankans taka sæti þeir Júlíus Þorfinnsson og Vitaliy Ardislamov.

Starfskjarastefna bankans var samþykkt. Stjórn var einnig veitt heimild til breytinga á áður gerðri kaupréttaráætlun byggðri á 10. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt þannig að heimilt sé að gera kaupréttarsamninga við starfsfólk félagsins um kaup á hlutum í bankanum fyrir allt að 1.500.000 krónur á ári í stað 600.000 eins og núgildandi áætlun kveður á um.

Fundurinn samþykkti að lækka hlutafé bankans um 70.000.000 krónur að nafnvirði til jöfnunar eigin hluta, úr 1.730.000.000 krónum í 1.660.000.000. Jafnframt var heimild til stjórnar til að kaupa allt að 10% af hlutafé bankans endurnýjuð og stjórn veitt heimild til að gefa út breytanleg skuldabréf sem falla undir viðbótar eigin fjár þátt 1 og gildir sú heimild fram að aðalfundi ársins 2025.

Nánar má lesa um aðalfund Arion banka 2020 og samþykktir fundarins á vef bankans.

Árs- og samfélagsskýrsla Arion banka fyrir árið 2020 er aðgengileg hér.


Niurstour Aalfundar Arion Banka 2021.pdf