Icelandic
Birt: 2021-02-25 16:55:48 CET
Vátryggingafélag Íslands hf.
Ársreikningur

VÍS: Ársreikningur ársins 2020

Ársreikningur félagsins fyrir árið 2020 var staðfestur af stjórn og forstjóra á stjórnarfundi þann 25. febrúar 2021. Ársreikningurinn verður lagður fyrir aðalfund VÍS þann 19. mars til samþykktar.

Helstu niðurstöður ársins 2020

  • Hagnaður var 1.798 milljónir kr. árið 2020 í samanburði við 2.527 milljónir kr. árið 2019
  • Samsett hlutfall fyrir árið 2020 var 109,8% samanborið við 97,5% árið áður
  • Iðgjöld ársins 2020 voru 22.496 milljónir kr. samanborið við 23.351 milljón kr. árið 2019
  • Fjárfestingatekjur ársins voru 5.284 milljónir kr. samanburði við 3.551 milljón kr. árið 2019
  • Arðsemi eigin fjár var jákvæð um 12,0% í samanburði við 17,2% árið 2019
  • Hagnaður á hlut er 0,95 en var 1,33 árið áður

Helstu niðurstöður 4F 2020

  • Hagnaður tímabilsins var 1.813 milljónir kr. samanborið við 729 milljónir kr. á sama tímabili 2019
  • Afkoma af vátryggingarekstri tímabilsins var neikvæð um 804 milljónir kr. samanborið við 240 milljóna kr. jákvæða afkomu á sama tímabili 2019
  • Samsett hlutfall tímabilsins var 115,3% en var 97,4% á 4F 2019
  • Iðgjöld tímabilsins voru 5.562 milljónir kr. í samanburði við 6.077 milljónir kr. á 4F 2019
  • Tekjur af fjárfestingastarfsemi voru 2.724 milljónir kr. en voru 987 milljónir kr. á sama tímabili 2019

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS:

„Árið 2020 var sérstakt fyrir margra hluta sakir. Undirliggjandi tryggingarekstur ársins var góður m.a. vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum. Neikvæð matsþróun undanfarin ár leiddi til þess að aðferðafræði við tryggingafræðilega útreikninga á tjónaskuld var aðlöguð og endurskoðuð til að lágmarka neikvæða matsþróun til framtíðar. Styrking tjónaskuldar, matsbreytingar og endurskoðuð aðferðafræði er stærsta ástæða þess að tjónaskuldin hækkaði um tæpa þrjá milljarða króna sem hafði veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu síðasta árs. Hagnaður ársins 2020 var 1.798 milljónir króna í samanburði við 2.527 milljónir króna árið 2019. Samsett hlutfall ársins var 109,8% borið saman við 97,5% árið á undan.

Þess ber að geta að stjórn félagsins hefur samþykkt endurkaupaáætlun að fjárhæð allt að 500 milljónir kr., með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, og þá leggur stjórn til við aðalfund félagsins að samþykkt verði arðgreiðsla til hluthafa upp á rúmlega 1,6 milljarð króna.

Besti árangur í fjárfestingum frá skráningu félagsins

Árangur í fjárfestingum á síðasta ári var sá besti frá skráningu félagsins. Fjárfestingatekjur ársins voru 5,3 ma.kr. eða 14,0% nafnávöxtun yfir tímabilið. Skráð hlutabréf skiluðu rúmlega 35% ávöxtun á árinu. Erlend skuldabréf skiluðu góðri afkomu á fjórða ársfjórðungi, sem og árinu í heild,en erlendar fjárfestingar telja nú um 10% af heildarsafni félagsins. Þess ber að geta að þær eru gengisvarðar að fullu. Fjárfestingaeignir í lok ársins námu 41 ma.kr. Um 37% af safninu eru í hlutabréfum og þar af 27% í skráðum innlendum hlutabréfum.

Öruggara samfélag er betra samfélag

Þrátt fyrir krefjandi aðstæður sem sköpuðust á síðasta ári vegna faraldursins þá gekk starfsemin vonum framar. Ég er stoltur af starfsmönnum félagsins sem sýndu og sönnuðu hvað í þeim býr. Þetta er samhentur hópur öflugra starfsmanna ─ með skýr markmið.

Segja má að faraldurinn hafi verið prófsteinn fyrir stafræna þróun víða í samfélaginu og þar var VÍS engin undantekning. Þjónustan var færð alfarið á netið um miðjan marsmánuð og viðskiptavinir félagsins brugðust vel við þeirri breytingu. Þeir nýttu sér óhikað stafrænar lausnir félagsins. Mánaðarlegum innskráningum á vis.is hefur  t.a.m. fjölgað um nær 400% frá því að stafræn vegferð félagsins hófst fyrir um þremur árum. Þess ber að geta að innskráningar jukust um tæp 90% á síðasta ári. Þá var einnig sett met í hlutfalli rafrænna tjónstilkynninga en um 60% allra tjóna eru nú tilkynnt rafrænt.

Í marsmánuði verður hægt að tryggja sér Ökuvísi ─ sem er byltingarkennd nýjung á íslenskum tryggingamarkaði. Þetta er app sem gefur aksturslagi einkunn og bendir viðskiptavinum okkar á uppbyggilegan hátt á hvað megi gera betur. Með virkri endurgjöf er hægt að hjálpa viðskiptavinum okkar að lenda sjaldnar í umferðaróhappi. Því betur og minna sem viðskiptavinir okkar keyra, því minna borga þeir. Þannig stjórna þeir ferðinni, í orðsins fyllstu merkingu. Markmið verkefnisins er skýrt. Að breyta umferðarmenningunni í samvinnu við viðskiptavinina ─ og fækka þar með umferðarslysum hér á landi. Öruggara samfélag er betra samfélag. Ég hef fulla trú á að þessi nýjung falli í góðan jarðveg hjá viðskiptavinum okkar.

Þrátt fyrir ýmsar áskoranir sem fylgdu alheimsfaraldrinum  þá fékk félagið góðan byr í seglin í átt að framtíðarsýninni ─ að vera stafrænt þjónustufyrirtæki sem breytir því hvernig tryggingar virka.“

Kynningarfundur

Kynningarfundurinn vegna uppgjörsins  fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn föstudaginn 26. febrúar, klukkan 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 3.

Helgi Bjarnason, forstjóri félagsins, mun kynna uppgjörið og svara spurningum.

Við biðjum þá sem hafa hug á að mæta á fundinn að senda tölvupóst á fjarfestatengsl@vis.is svo við getum haldið vel utan um fjölda þeirra sem mæta.

Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu og nálgast upptöku að honum loknum á vefslóðinni:
https://www.vis.is/fjarfestafundir/  

Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast hér: https://www.vis.is/fjarfestaupplysingar/ 

Fjárhagsdagatal 

Aðalfundur 2021  ||  19. mars 2021
Fyrsti ársfjórðungur  2021 ||  29. apríl 2021
Annar ársfjórðungur  2021  ||  19. ágúst 2021
Þriðji ársfjórðungur  2021 ||  21. október 2021

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS, í síma 660-5260 eða með netfanginu erlat@vis.is

Viðhengi



Afkomutilkynning 4F 2020.pdf
VIS - Samstuarsreikningur 31.12.2020.pdf