English Icelandic
Birt: 2021-02-25 16:40:05 CET
Eimskipafélag Íslands hf.
Reikningsskil

Eimskip: Ársuppgjör 2020

Helstu atriði í afkomu ársins 2020

  • Tekjur námu 668,3 milljónum evra og lækkuðu um 11,3 milljónir evra eða 1,7 % samanborið við árið 2019.
  • Kostnaður nam 606,6 milljónum evra sem er lækkun um 12,4 milljónir evra milli ára eða 2,0%. Launakostnaður lækkaði um 18,1 milljónir evra eða 13,7% og þar af um 9,6 milljónir evra vegna hagræðingaraðgerða.
  • EBITDA nam 61,7 milljónum evra samanborið við 60,5 milljónir evra fyrir árið 2019, sem er hækkun um 1,9%. EBITDA framlegð var 9,2% samanborið við 8,9% árið áður.
  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði, EBIT,  jókst um 3,6 milljónir evra og nam 17,1 milljón evra.
  • Hagnaður ársins nam 4,5 milljónum evra samanborið við hagnað að fjárhæð 1,0 milljón evra árið 2019.
  • Heildar fjárfestingar ársins námu 52,7 milljónum evra samanborið við 38,9 milljónir evra árið 2019.
    • Fjárfestingar voru óvenju háar vegna fjárfestinga í nýjum gámaskipum að fjárhæð 36,9 milljónir evra.
  • Handbært fé frá rekstri nam 51,2 milljónum evra, sambærilegt og á fyrra ári.
  • Eigið fé nam 230,7 milljónum evra í árslok og eiginfjárhlutfallið nam 43,0% en til samanburðar var eiginfjárhlutfallið 44,0% í árslok 2019.
  • Skuldsetningarhlutfall var 3,33 í lok ársins, samanborið við 3,03 í lok árs 2019. Það er yfir langtíma markmiði um skuldsetningarhlutfall á bilinu 2-3x nettó vaxtaberandi skuldir á móti EBITDA og skýrist að mestu vegna fjárfestinga í nýjum skipum.
  • Mikil vinna hefur verið lögð í að tryggja heilsu og öryggi starfsmanna, halda flutningakeðjunni gangandi og að tryggja góða þjónustu við viðskiptavini vegna áhrifa COVID-19.

Helstu atriði í afkomu fjórða ársfjórðungs

  • Tekjur námu 175,7 milljónum evra og hækkuðu um 0,1 milljónir evra frá sama ársfjórðungi 2019.
    • Magn í áætlunarsiglingum jókst um 10,2% sem hafði jákvæð áhrif á tekjur. Á móti hafði veiking íslensku krónunnar og Bandaríkjadals neikvæð áhrif á tekjur til lækkunar og sama gerði lækkun olíuverðs.
  • Kostnaður nam 160,7 milljónum evra sem er lækkun um 3,6 milljón evra milli tímabila sem skýrist að mestu af hagræðingaraðgerðum og veikingu íslensku krónunnar.
    • Launakostnaður lækkaði um 4,8 milljónir evra eða 14,3% og þar af um 1,8 milljónir evra vegna hagræðingaraðgerða.
  • EBITDA nam 14,9 milljónum evra á fjórða ársfjórðungi 2020 samanborið við 11,2 milljónir evra á sama ársfjórðungi síðasta árs.
  • Hagnaður fjórðungsins nam 0,8 milljónum evra samanborið við 6,4 milljóna evra tap á sama ársfjórðungi síðasta árs.


VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI

„Ég er nokkuð ánægður með niðurstöðu ársins 2020 sem var krefjandi á margan hátt. Við héldum áfram að einblína á kjarnastarfsemi félagsins og arðsemi jókst á seinni hluta ársins í kjölfar umfangsmikilla hagræðingar aðgerða. Það gekk vel á Alþjóðasviðinu okkar sem og í innanlands starfsemi félagsins. Þrátt fyrir hagræðingaraðgerðir og umbætur í siglingakerfi félagsins er afkoman af þeim þætti rekstrarins enn undir væntingum.

EBITDA jókst um 2% eða um 1,1 milljón evra,  sem skýrist að mestu leiti af hagræðingaraðgerðum. EBIT jókst um 3,6 milljónir evra og nam 17,1 milljón evra. Launakostnaður lækkaði um 18,1 milljón evra milli ára og þar af um 9,6 milljónir evra vegna hagræðingaraðgerða. Mikil áhersla var lögð á sjóðstreymi og viðskiptakröfur á árinu og þriðjungi af fyrirhuguðum viðhaldsfjárfestingum ársins var frestað vegna óvissu tengdri COVD-19.

Á árinu tókum við á móti tveimur nýjum gámaskipum sem var mikilvægur áfangi í endurnýjun skipaflota félagsins. Brúarfoss og Dettifoss eru vel búin skip sem mæta umhverfis kröfum nútímans. Við hófum samsiglingar með grænlenska skipafélaginu Royal Arctic Line og jókst þar með þjónusta við grænlenska markaðinn verulega.

Samhliða birtingu á uppgjöri félagsins í dag birtum við sjálfbærni skýrslu ársins. Á árinu voru margar stefnur tengdar málaflokknum uppfærðar og nokkrar nýjar litu dagsins ljós. Að auki höfum við uppfært þriggja ára aðgerðaráætlun um sjálfbærni. Við ætlum okkur að vera áfram leiðandi á þessu sviði og finnum fyrir auknum áhuga viðskiptavina á þessum málaflokki.

Það má með sanni segja að árið 2020 hafi einkennst að mörgu leiti af COVID-19. Ég er gríðarlega stoltur og þakklátur fyrir okkar góða starfsfólk sem hefur tekist að halda flutningakeðjunni óbrotinni á þessum krefjandi tímum og unnið mjög vel í að þjónusta viðskiptavini og í því að finna nýjar lausnir í flutningaleiðum þar sem þess hefur verið þörf.

EBITDA afkomuspá ársins 2021 er á bilinu 68-77 milljónir evra. Við leggjum áfram áherslu á að viðhalda kostnaðarlækkunum og þeim umbótum sem náðst hafa í rekstrinum og vinna þannig að aukinni arðsemi. “


RAFRÆNN KYNNINGARFUNDUR 26 FEBRÚAR 2021

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti ársreikning samstæðu Eimskips fyrir árið 2020 á stjórnarfundi þann 25. febrúar 2021. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn föstudaginn 26. febrúar kl. 8:30. Fundurinn verður eingöngu rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors. Þar mun Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri kynna uppgjör félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.

  

FREKARI UPPLÝSINGAR

  • Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs, sími: 825 3399, netfang: investors@eimskip.com


TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA

Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.

Viðhengi



Eimskip - 2020 Financial Results - Investor Presentation.pdf
Eimskip - Consolidated Financial Statements 2020.pdf
Eimskips Sustainability Statement 2020.pdf