Icelandic
Birt: 2021-02-24 16:51:00 CET
RARIK ohf.
Ársreikningur

Ársreikningur RARIK fyrir árið 2020

Fréttatilkynning til Kauphallar Íslands

Hagnaður RARIK minnkar um þriðjung á milli ára

Samkvæmt rekstrarreikningi nam hagnaður ársins 1.781 milljón króna sem er talsvert minna en áætlanir gerðu ráð fyrir og nemur lækkunin 35% frá árinu 2019, þegar hagnaður ársins nam 2.726 milljónum króna. Reiknuð áhrif hlutdeildarfélagsins Landsnets voru 832 milljónir króna en þau voru 770 milljónir á árinu 2019. Heildarhagnaður að teknu tilliti til þýðingarmunar vegna hlutdeildarfélags og áhrifa af endurmati fastafjármuna var 5.797 milljónir króna.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 5.271 milljón króna eða 32,4% af veltu ársins, samanborið við 34,2% á árinu 2019. Handbært fé frá rekstri nam 4.303 milljónum króna.

Rekstrartekjur lækkuðu um 3% frá árinu 2019 og námu 16.268 milljónum króna og rekstrargjöld hækkuðu á milli ára um 1,5% og námu 13.470 milljónum króna.

Rekstrarhagnaður af starfsemi RARIK fyrir fjármagnsliði (EBIT) á árinu 2020 nam 2.798 milljónum króna sem er 20% lækkun frá fyrra ári. Veiking íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum, verðbólga á árinu og lægri tekjur af skammtímaávöxtum gerðu það að verkum að fjármagnsliðir voru talsvert óhagstæðari en árið 2019. Fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur námu 1.612 milljónum króna, en á árinu 2019 námu þau 1.059 milljónum króna.

Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir RARIK í árslok 78.854 milljónir króna og hækkuðu um 10.548 milljónir króna á milli ára. Heildarskuldir námu 29.132 milljónum króna og hækkuðu um 4.752 milljónir króna frá fyrra ári. Eigið fé var 49.722 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall því 63,1% samanborið við 64,3% í árslok 2019. Fjárfestingar ársins að frádregnu söluandvirði seldra rekstrarfjármuna námu 7.475 milljónum króna, sem er 1.963 milljónum króna meira en árið á undan.

Tekjur samstæðunnar lækkuðu á milli ára vegna minni raforkusölu og lægri tekna af tengigjöldum, en einnig varð lítilsháttar samdráttur í tekjum af dreifingu. Í ársbyrjun varð tjón á rafdreifikerfi RARIK vegna óveðurs sem gekk yfir landið og hafði það í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir fyrirtækið. Í kjölfar þess samþykkti stjórn að hraða endurnýjun dreifikerfisins á árinu.

Kórónuveirufaraldurinn hafði töluverð áhrif á starfsemi samstæðunnar á árinu einkum hvað varðar vinnutilhögun starfsmanna. Félagið metur það svo að fjárhagsleg áhrif af heimsfaraldrinum hafi þó ekki verið veruleg. Vegna faraldursins ákváðu stjórnvöld hins vegar að hefja vinnu til að flýta uppbyggingu dreifikerfisins sem mun koma til framkvæmda á árunum 2021-2025. Í árslok 2020 var hlutfall jarðstrengja í dreifikerfi RARIK komið í tæp 70%.

Á árinu keypti RARIK raforkudreifikerfi Rafveitu Reyðarfjarðar og jafnframt keypti dótturfélagið Orkusalan raforkusölu og raforkuframleiðslu Rafveitu Reyðarfjarðar. Þá var jarðhitaveita á Hornafirði tekin í notkun í árslok 2020 sem leysir af hólmi fjarvarmaveitu á Höfn sem þar var rekin.

Stjórn RARIK leggur til við aðalfund að greiddar verði 310 milljónir króna í arð til eiganda fyrirtækisins, sem er Ríkissjóður Íslands.

Samstæðuársreikningur RARIK ohf. er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. 

Þrátt fyrir að áhrif Kórónuveirufaraldurs vari enn eru horfur í rekstri RARIK á árinu 2021 góðar. Gert er ráð fyrir að hagnaður ársins af reglulegri starfsemi samstæðunnar verði heldur meiri en á árinu 2020, en að fjárfestingar dragist saman á milli ára, einkum vegna minni framkvæmda við hitaveitur, en áfram verður unnið að uppbyggingu og endurnýjun rafdreifikerfis samstæðunnar.


Helstu stærðir samstæðureiknings RARIK, allar fjárhæðir í milljónum króna:

 2020 2019 2018 2017 2016 2015 2014 2013 2012
                  
Rekstartekjur 16.268 16.777 16.637 14.886 14.670 13.252 12.521 11.793 11.412
Rekstrargjöld 13.470 13.276 13.022 11.884 11.399 10.755 9.513 9.108 8.428
Rekstrarhagnaður2.798 3.501 3.615 3.002 3.271 2.497 3.008 2.684 2.984
Hrein fjármagnsgjöld-1.612 -1.059 -1.274 -706 -293 -850 -748 -867 -1.282
Áhrif hlutdeildarfélags832 770 909 670 -344 903 847 491 180
Hagnaður fyrir skatta2.018 3.212 3.250 2.966 2.634 2.550 3.107 2.309 1.882
Tekjuskattur-237 -486 -469 -459 -594 -330 -446 -362 -341
Hagnaður1.781 2.726 2.781 2.507 2.040 2.220 2.661 1.947 1.541
                  
Eignir samtals 78.854 68.306 65.953 58.465 57.722 57.751 48.536 46.787 44.569
Eigið fé49.722 43.926 41.132 37.730 36.134 35.623 29.495 27.144 25.507
Skuldir29.132 24.380 24.821 20.735 21.588 22.128 19.041 19.643 19.062
                  
Handbært fé frá rekstri4.303 4.307 3.755 3.952 3.487 3.587 3.837 3.541 3.257
Greidd vaxtagjöld689 734 667 625 727 741 649 657 630
                  
EBITDA5.271 5.740 5.569 4.767 5.066 4.151 4.719 4.300 4.351
Vaxtaþekja7,65 7,82 8,35 7,63 6,97 5,60 7,27 6,54 6,91
Eiginfjárhlutfall63,1% 64,3% 62,4% 64,5% 62,6% 61,7% 60,8% 58,0% 57,2%
                  
EBITDA/Velta32,4% 34,2% 33,5% 32,0% 34,5% 31,3% 37,7% 36,5% 38,1%

 


Ársreikningur RARIK 2020 var samþykktur á fundi stjórnar þann 24. febrúar, 2021 og heimilaði stjórn birtingu hans í Kauphöll Íslands.

Nánari upplýsingar veitir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK í síma 528-9000.

 

Viðhengi



Frettatilkynning - Arsreikningur RARIK fyrir ari 2020.pdf
Samstuarsreikningur RARIK ohf 2020.pdf