English Icelandic
Birt: 2021-02-18 16:34:52 CET
Síminn hf.
Ársreikningur

Síminn hf. - Góð afkoma við krefjandi aðstæður

Helstu niðurstöður úr rekstri á 4F 2020

  • Tekjur á fjórða ársfjórðungi (4F) 2020 námu 8.192 m.kr. samanborið við 7.896 m.kr. á sama tímabili 2019 og hækka því um 296 m.kr. eða 3,7%.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði EBITDA nam 2.894 m.kr. á 4F 2020 samanborið við 2.728 m.kr. á sama tímabili 2019 og hækkar því um 166 m.kr. eða 6,1% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 35,3% fyrir fjórða ársfjórðung 2020 en var 34,5% á sama tímabili 2019. Rekstrarhagnaður EBIT hækkar um 170 m.kr eða 14,6% frá sama tímabili í fyrra.
  • Hagnaður á 4F 2020 nam 1.055 m.kr. samanborið við 760 m.kr. á sama tímabili 2019.
  • Á ársfjórðungnum voru bakfærðar 300 m.kr. vegna lækkunar á stjórnvaldssekt í kjölfar úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 13. janúar sl. Áður hafði Síminn gjaldfært 500 m.kr. á öðrum ársfjórðungi ársins.
  • Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 2.159 m.kr. á 4F 2020 en var 2.092 m.kr. á sama tímabili 2019. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 1.623 m.kr. á 4F 2020 en 1.471 m.kr. á sama tímabili 2019.
  • Vaxtaberandi skuldir námu 15,9 ma.kr. í lok árs 2020 en voru 16,2 ma.kr. í árslok 2019. Hreinar vaxtaberandi skuldir voru 15,2 ma.kr. í árslok 2020 samanborið við 16,0 ma.kr. í árslok 2019.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 105 m.kr. á 4F 2020 en voru 231 m.kr. á sama tímabili 2019. Fjármagnsgjöld námu 203 m.kr., fjármunatekjur voru 52 m.kr. og gengishagnaður var 46 m.kr.
  • Eiginfjárhlutfall Símans hf. var 57,2% í lok árs 2020 og eigið fé 37,3 ma.kr.

Orri Hauksson, forstjóri:

„Rekstrarniðurstaða ársins 2020 var vel ásættanleg. Eins og þekkt er settu stórir heimsatburðir mark sitt á þetta óvenjulega ár, en samstæða Símans komst ágætlega frá þeirri raun.

Árið byrjaði mjög vel hjá samstæðunni, en ýmis rekstraráhrif komu fram í lok fyrsta ársfjórðungs þegar faraldurinn skall á. Þar má nefna að reikitekjur hurfu að mestu og kostnaður samstæðunnar í erlendri mynt jókst í krónum talið. Eins og hjá flestum fyrirtækjum landsins varð hluti starfseminnar flóknari en fyrr og ýmis verkefni töfðust. Öll fyrirtæki samstæðunnar brugðust hratt við nýjum veruleika og þrátt fyrir mótvind þurfti ekkert þeirra að nýta sér hlutabótaleið eða önnur úrræði hins opinbera.

Fyrstu 5G sendarnir komust í gagnið og Síminn var orðinn stærstu söluaðili ljósleiðaratenginga um mitt árið. Rekstur Mílu var stöðugur í gegnum samkomutakmarkanir ársins. Áhersla var lögð á að tryggja öruggan rekstur fjarskiptainnviða og bregðast við breyttri notkun sem hlaust af stóraukinni fjarvinnu. Míla hélt áfram ljósleiðaravæðingu sinni, þó með aðeins hægari gangi en fyrr. Ytri aðstæður, s.s. faraldurinn á árinu auk óveðra og rafmagnsleysis síðustu misserin, urðu til þess að röð fjárfestingaverkefna breyttist og vissum aðgerðum var frestað.

Dagleg starfsemi og uppitími fjarskiptakerfa samstæðunnar í heild hélst afar vel þótt umgengnishömlur og fjarvinna breyttu vinnulaginu. Starfsmenn allra félaga samstæðunnar eiga heiður skilinn fyrir snerpu og ósérhlífni, en sem dæmi má nefna að þjónustuver Símans var á einni nóttu fært úr einu rými í Ármúla inn á rúmlega 60 heimili starfsmanna á suðvesturhorninu, án þess að viðskiptavinir yrðu nokkurs varir. Sensa jók þjónustu sína í faraldrinum við fyrirtækin í landinu og átti besta rekstrarár sitt frá upphafi. Þá lækkuðu ferðakostnaður og ýmis önnur útgjöld í starfseminni, auk þess sem Síminn flýtti ýmsum hagræðingaraðgerðum, sem leiddu til rekstrarbata þegar leið á árið. Hugbúnaðarþróun Símans var um mitt ár útvistað til Deloitte á Íslandi og í Portúgal, sem eykur viðbragðssnerpu og þjónustugetu félagsins til lengri tíma.

Búnaðarsala jókst á árinu 2020, meðal annars vegna langtum minni ferðalaga Íslendinga til útlanda. Lág framlegð er þó af tekjum af sölu notendabúnaðar. Tekjur af fjarskiptum jukust lítillega, ef frá eru dregnar fyrrgreindar tekjur tengdar ferðalögum. Tekjur af sjónvarpsþjónustu jukust frá fyrra ári, fyrst og fremst vegna þess að sýningarrétturinn að ensku úrvalsdeildinni var á hendi Símans allt árið 2020 en aðeins á seinni hluta árs 2019. Þá var meiri eftirspurn eftir Premium sjónvarpsvöru Símans en árið á undan. Hvert áskriftarheimili nýtti efnisframboð Símans einnig betur en fyrr. Þannig slóg vikulegur spilanafjöldi sjónvarpsþátta reglulega í 1,2 milljónir, sem er fjórföldun frá því fyrir þremur árum.

Síminn er nú að þróa fyrirkomulag sjónvarpsrekstrar síns enn frekar, til að auka sveigjanleika og fjölbreytileika við að sinna viðskiptavinum. Í fyrra var einnig samið við Gagnaveitu Reykjavíkur (GR) um að selja þjónustu félagsins yfir net GR. Komast báðar breytingar í gagnið á næstu vikum og mánuðum.

Síminn var óvænt dæmdur til greiðslu rúmlega 100 m.kr. skaðabóta á árinu 2020, vegna fimmtán ára gamals máls. Þá sektaði Samkeppniseftirlitið félagið um 500 m.kr. vorið 2020 vegna meintra brota félagsins á sáttum við eftirlitið. Síminn taldi niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins ranga og kærði hana til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þar var meirihluti ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins felldur úr gildi. Við það lækkaði sektin í 200 m.kr. og fékk Síminn mismuninn, 300 m.kr., endurgreiddan með vöxtum nú í byrjun árs 2021. Síminn telur niðurstöðu nefndarinnar skref í rétta átt en þó ekki þá lokaniðurstöðu sem félagið telur lagalega rétta. Vísast verður áfram deilt um þessi mál, þar sem þau snerta grunn samkeppnisrekstrar á Íslandi. Síminn varði tugum milljóna króna í lögfræði- og málarekstur við fyrrgreind ágreiningsmál, þar með talið þau sem felld hafa verið niður. Í heild höfðu deilumál þessi neikvæð áhrif á reksturinn sem leiddu til fráviks frá upphaflegri áætlun.

Árið 2020 var nýtt til að endurmeta stefnu, samsetningu og fjármögnun samstæðunnar. Ákveðið var að taka tilboði hins alþjóðlega upplýsingatæknifyrirtækis Crayon í allt hlutafé Sensa og nam söluverðið 3.250 m.kr. Fyrirvari er um samþykkt Samkeppniseftirlitsins en búast má við niðurstöðu fyrir vorið. Síminn mun áfram starfa á sviði upplýsingatækni og bjóða slíkar afurðir til viðskiptavina sinna á fyrirtækjamarkaði.

Verkaskiptingu milli Símans og Mílu var breytt í upphafi árs 2021 eftir ítarlegan undirbúning síðari hluta ársins 2020. Umsvif Mílu aukast við breytinguna með því að félagið tekur yfir netrekstur sem áður var innan vébanda Símans. EBITDA Mílu eykst samhliða þessum breytingum en EBITDA Símans lækkar á móti. Verður EBITDA beggja félaganna áþekk í ár, en rekstrarumfang, efnahagur og sjóðstreymi Mílu mun vaxa við breytinguna eins og útlistað er í fjárfestakynningu.

Samstæðan er langt komin með að breyta fjármögnun sinni með þeim hætti að Míla mun sækja eigið lánsfjármagn. Vinna við þá fjármögnun Mílu frá Íslandsbanka er á lokametrunum. Móðurfélagið er samhliða að ganga frá endurfjármögnun lána sinna hjá Arion banka. Í kjölfarið verður hvort félag með sína eigin ytri fjármögnun og því engin lán á milli félaganna, en móðurfélagið hefur um árabil séð um alla fjármögnun samstæðunnar. Við breytingu á fjármagnsskipan innan samstæðunnar og með sölu á Sensa losnar um fé sem ekki nýtist í reglulegum rekstri. Er því ráðgert að koma þeim fjármunum í hendur hluthafa í kjölfar aðalfundar.

Ásamt breyttri verkaskiptingu er þessi nýja fjármangsskipan liður í því að aðgreina betur þau ólíku viðskiptamódel sem rekin eru innan samstæðunnar. Þannig mun Míla sinna innviðum og netrekstri í heildsölu en Síminn inna af hendi þjónustu til endaviðskiptavina. Míla er nú orðið stærra og sjálfstæðara félag en fyrr, sem sinnir á jafnræðisgrundvelli og á sömu einingaverðunum öllum þjónustuveitendum landsins í fjarskiptum og öðrum viðskiptavinum sínum.

Helstu verkefni ársins 2021 eru að leiða til lykta breytingar á samstæðunni, ákveða samsetningu hennar til framtíðar og skerpa á þjónustu eininganna gagnvart viðskiptavinum sínum. Markmið allra þessara breytingar er aukin arðsemi eigin fjár og að vera með ánægðustu viðskiptavinina á Íslandi.“

 

Kynningarfundur 19. febrúar 2021

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn föstudaginn 19. febrúar kl. 8:30. Fundurinn verður eingöngu rafrænn og munu Orri Hauksson forstjóri og Óskar Hauksson fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins og svara fyrirspurnum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast í fréttakerfi Nasdaq Iceland og á heimasíðu Símans https://www.siminn.is/umsimann/uppgjor

Hægt verður að fylgjast með fundinum í netstreymi á vefslóðinni: https://www.siminn.is/fjarfestakynning

Þeir sem vilja bera upp spurningar á meðan á streymi stendur geta sent þær á fjarfestatengsl@siminn.is og verður þeim svarað í lok fundarins.

 

Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550 6003 (orri@siminn.is)
Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans, s. 550 6003 (oskarh@siminn.is)

 

Viðhengi



Siminn hf. - Arsreikningur samstu 2020.pdf
Siminn hf. - Fjarfestakynning 4F 2020.pdf
Siminn hf - Afkomutilkynning 4F 2020.pdf