English Icelandic
Birt: 2021-02-18 16:23:28 CET
Landsvirkjun
Ársreikningur

Ársreikningur Landsvirkjunar

Afkoma litast af heimsfaraldrinum

Helstu atriði ársreiknings

  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 138,7 milljónum USD (17,6 ma.kr.), en var 176,0 milljónir USD árið áður og lækkar því um  21,2% milli ára. 
  • Hagnaður ársins var 78,6 milljónir USD (10,0 ma.kr.) en var 114,9 milljónir USD árið áður.
  • Rekstrartekjur námu 453,5 milljónum USD (57,6 ma.kr.) og lækka um 56,1 milljón USD (11,0%) frá árinu áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 15,7 milljónir USD (2,0 ma.kr.) milli ára og voru í árslok 1.675,8 milljónir USD (212,8 ma.kr.). Vaxtagjöld lækka um 11,9 milljónir USD (1,5 ma.kr.) milli ára.
  • Handbært fé frá rekstri nam 234,1 milljón USD (29,7 ma.kr.) sem er 20,9% lækkun frá árinu áður.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Rekstur og afkoma Landsvirkjunar árið 2020 lituðust óhjákvæmilega af áhrifum heimsfaraldursins, sem hafði mikil áhrif á efnahagslífið á Íslandi og í heiminum öllum. Viðskiptavinir okkar drógu margir úr framleiðslu vegna minnkandi eftirspurnar og lækkandi afurðaverðs, auk þess sem orkuverð lækkaði mjög á mörkuðum, þótt sú þróun hafi að nokkru gengið til baka síðla árs. Hluti raforkusamninga Landsvirkjunar er tengdur álverði og verði á raforku á Nord Pool-markaði.

Árið 2021 byrjar ágætlega, en verð á ál- og Nord Pool mörkuðum hefur hækkað milli ára. Þá var ánægjulegt að fyrr í vikunni undirritaði Landsvirkjun viðauka við raforkusamning við sinn elsta viðskiptavin, Rio Tinto á Íslandi, sem styrkir rekstrargrundvöll álversins á næstu árum og tryggir fyrirsjáanlegt tekjustreymi Landsvirkjunar.

Landsvirkjun er burðarás í íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Ábyrgð okkar er mikil og í því ljósi höfum við unnið af festu að því að bæta skuldastöðu fyrirtækisins síðasta áratuginn eða svo. Árangurinn af því starfi gerir okkur nú kleift að standa þétt við bakið á viðskiptavinum okkar með því til dæmis að veita þeim tímabundinn afslátt af rafmagnsverði á síðasta ári og taka þátt í öflugri viðspyrnu fyrir efnahagslífið með því að ráðast í ýmsar framkvæmdir, endurbætur, stafræna þróun og rannsókna- og þróunarverkefni víðs vegar um landið.

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði sem gefur besta mynd af grunnrekstri fyrirtækisins, lækkaði um 21% milli ára. Þar höfðu mest áhrif minni raforkusala, sértækar aðgerðir fyrir viðskiptavini og tenging raforkuverðs við álverð og Nord Pool verð.  Rekstrartekjur lækkuðu um 11% og handbært fé frá rekstri um 21%. Það er þó ánægjulegt að á sama tíma tókst okkur að halda áfram á þeirri braut að lækka nettó skuldir fyrirtækisins. Þrátt fyrir þennan óróleika í ytra umhverfi fyrirtækisins gekk starfsemin vel á árinu. Rekstur aflstöðva gekk vel. Þótt erfiðleikar steðji að efnahagslífinu nú um sinn eru viðskiptavinir okkar nú að auka framleiðslu sína og einnig blasa við ýmis tækifæri fyrir Landsvirkjun í framtíðinni, svo sem í grænni vetnisvinnslu, vistvænum iðngörðum og annarri grænni nýsköpun á borð við Orkídeuverkefnið á Suðurlandi, Bláma á Vestfjörðum og EIM á Norðurlandi. Framtíðin ætti því að vera björt, þótt gefið hafi á bátinn í bili.“




Viðhengi



Arsreikningur LV 2020 samsta.pdf
Frettatilkynning.pdf