English Icelandic
Birt: 2021-02-10 18:47:54 CET
Íslandsbanki hf.
Reikningsskil

Islandsbanki hf.: Afkoma á fjórða ársfjórðungi ársins 2020


 

Helstu atriði í afkomu fjórða ársfjórðungs 2020 (4F20)

  • Hagnaður bankans eftir skatta nam 3,5 ma. kr. miðað við 1,7 ma. kr. á 4F19. Það samsvarar 7,6% arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli eftir skatta (4F19: 3,7%) og er í samræmi við fjárhagsleg markmið bankans. Arðsemi umfram áhættulausa vexti var 7,1% á fjórða ársfjórðungi en samsvarandi fyrir 4F19 var 0,9%.
  • Hreinar vaxtatekjur námu 8,3 ma. kr. á fjórða ársfjórðungi, sama og á 4F19. Vaxtamunur var 2,5% á tímabilinu (4F2019: 2,7%). Hreinar þóknanatekjur eru sambærilegar á milli ára eða 2,9 ma. kr.
  • Hreinar fjármunatekjur voru 783 m.kr. sem skýrist að hluta til af hagfelldum aðstæðum á verðbréfamörkuðum.
  • Stjórnunarkostnaður lækkaði um 5,8% á milli ára vegna hagræðingaraðgerða síðustu tímabila og breytinga í rekstri vegna COVID-19 heimsfaraldurs. Kostnaðarhlutfallið var 51,7% og er því undir markmiði bankans sem er 55%.
  • Neikvæð virðisbreyting útlána var 1,8 ma. kr. á fjórðungnum sem er um það bil 400 m.kr. meira en á sama tímabili í fyrra. Það má aðallega rekja til áframhaldandi framtíðaróvissu vegna COVID-19, sér í lagi tengdri ferðaþjónustunni. Hrein virðisbreyting sem hlutfall af útlánum til viðskiptavina var 0,18% á fjórðungnum (0,73% á ársgrundvelli).
  • Íslandsbanki tók þátt í almennum úrræðum ásamt öðrum lánastofnunum til að veita viðskiptavinum greiðsluhlé en því samkomulagi lauk á fjórðungnum. Umsóknir um framlengingar á greiðsluhléi hafa verið metnar sérstaklega og flokkast nú sem umlíðun. Af þeim sökum hefur heildarfjárhæð útlána með umlíðun aukist verulega.
  • Útlán til einstaklinga jukust um 36,4 ma. kr. á fjórðungnum og stafar breytingin að mestu leyti af aukningu í húsnæðislánum. Innlán viðskiptavina lækkuðu um 2,7% á fjórðungnum og er sú lækkun helst komin til af lækkun innlána frá lífeyrissjóðum á meðan stöðug innlán jukust jafnt og þétt.
  • Bankinn birtir árs- og sjálfbærniskýrslu og áhættuskýrslu (Pillar 3) á sama tíma og ársreikning fyrir árið 2020 sem og áhrifaskýrslu fyrir sjálfbæran fjármálaramma bankans.

Helstu atriði í afkomu Íslandsbanka á árinu 2020

  • Hagnaður ársins 2020 eftir skatta var 6,8 ma. kr. (2019: 8,5 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár var 3,7% á ársgrundvelli (2019: 4,8%). Arðsemi umfram áhættulausa vexti jókst á milli ára og var 2,6% fyrir árið samanborið við 1,2% fyrir árið 2019.
  • Aukning í hreinum vaxtatekjum var 1,7% á milli ára og vaxtaálag fyrir árið 2020 var 2,6% samanborið við 2,7% á árinu 2019.
  • Hreinar þóknanatekjur lækkuðu á milli ára um 3,4% og námu 10,5 ma. kr. (2019: 10,9 ma. kr.). Lækkunina má að mestu rekja til minni kortaveltu í kjölfar COVID-19.
  • Stjórnunarkostnaður dróst saman um 7,1% á milli ára og nam 22,7 ma. kr. (2019: 24,5 ma. kr.) Lækkunin stafar af fækkun stöðugilda, hóflegum launahækkunum og lækkun á flestum kostnaðarliðum. Kostnaðarhlutfall á tímabilinu var 54,3% samanborið við 58,8% árið 2019.
  • Óvissa tengd COVID-19 endurspeglast í neikvæðri hreinni virðisbreytingu útlána og skýrir um 6,1 ma. kr. af  8,8 ma. kr. heildarvirðisrýrnun á árinu (2019: 3,5 ma. kr.).
  • Útlán til viðskiptavina jukust um 107 ma. kr. eða 11,9% á árinu 2020. Vöxturinn var aðallega í húsnæðislánum þar sem mikil eftirspurn var eftir endurfjármögnun.
  • Hlutfall lána með laskað lánshæfi var 2,9% (miðað við vergt bókfært virði) í lok árs samanborið við 3,0% árið áður.
  • Í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19 stóðu viðskiptavinum til boða ýmis úrræði vegna tímabundins tekjumissis en þessi úrræði leiddu til þess að umtalsverður hluti lánasafnsins var á stigi 2 (með verulega aukningu í útlánaáhættu) í lok árs 2020 eða 15,6% samanborið við 2,6% ári áður.
  • Innlán frá viðskiptavinum hækkuðu um 61,1 ma. kr. eða 9,9% á árinu og námu 679 ma. kr. í lok árs sem stafar af auknum innlánum einstaklinga og fyrirtækja. Bankinn hélt áfram útgáfu skuldabréfa á árinu, sér í lagi á fjórða ársfjórðungi, með útgáfu sértryggðra bréfa og almennra skuldabréfa. Í nóvember gaf bankinn út sína fyrstu sjálfbæru skuldabréfaútgáfu, og jafnframt fyrstu sjálfbæru skuldabréfaútgáfu íslensks banka, að fjárhæð 300 milljónir evra til 3 ára. Útgáfan, sem kom í kjölfar útgáfu sjálfbærs fjármálaramma bankans, ber 0,5% fasta vexti sem jafngildir 100 punkta álagi yfir millibankavöxtum í evrum. Viðtökurnar voru mjög góðar þar sem umframeftirspurn var rúmlega fjórföld og seldist útgáfan til breiðs hóps evrópskra fjárfesta. Viku seinna gaf bankinn út fyrsta græna skuldabréf bankans að fjárhæð 2,7 ma. kr. til 5 ára. Andvirði útgáfnanna verður notað til lánveitinga sem uppfylla skilyrði sjálfbæra fjármálarammans.
  • Eiginfjárhlutföll bankans hækkuðu á árinu og var eiginfjárhlutfallið 23,0% í lok árs, hlutfall almenns eiginfjár þáttar 1 var 20,1% og vogunarhlutfallið var 13,6%. Lausafjárhlutföllin haldast traust og eru vel yfir reglubundnum kröfum.

Lykiltölur

    4F20 4F19 2020 2019 2018
             
REKSTUR Hagnaður eftir skatta, m.kr 3.525 1.659                  6.755 8.454 10.645
  Arðsemi eigin fjár (eftir skatta) 7,6% 3,7% 3,7% 4,8% 6,1%
  Arðsemi ofan á áhættulausa vexti 7,1% 0,9% 2,6% 1,2% 2,1%
  Vaxtamunur (af heildareignum) 2,5% 2,7% 2,6% 2,7% 2,9%
  Kostnaðarhlutfall¹ 51,7% 62,9% 54,3% 58,8% 66,3%
            
            
    31.12.20 30.09.20 30.06.20 31.12.19 31.12.18
       
   
EFNAHAGUR Útlán til viðskiptavina, m.kr 1.006.717 970.309 933.320 899.632 846.599
  Eignir samtals, m.kr 1.344.191 1.328.724 1.303.256 1.199.490 1.130.403
  Áhættuvegnar eignir, m.kr 933.521 942.339 923.133 884.550 845.949
  Innlán frá viðskiptavinum, m.kr 679.455 698.610 681.223 618.313 578.959
  Útlán til viðskiptavina / innlán frá viðskiptavinum 148,2% 138,9% 137,0% 145,5% 146,2%
  Hlutfall lána með laskað lánshæfi² 2,9% 3,3% 3,6% 3,0% 2,0%
            
       
   
LAUSAFÉ Lausafjárhlutfall (LCR), allir gjaldmiðlar 196% 136% 179% 155% 172%
  Hlutfall stöðugrar fjármögnunar (NSFR), allir gjaldmiðlar 123% 113% 117% 119% 114%
         
       
   
EIGIÐ FÉ Eigið fé samtals, m.kr 186.204 182.509 179.722 180.062 176.313
  Eiginfjárhlutfall 23,0% 22,2% 22,2% 22,4% 22,2%
  Eiginfjárhlutfall þáttar 1 20,1% 19,4% 19,4% 19,9% 20,3%
  Vogunarhlutfall 13,6% 13,4% 13,4% 14,2% 14,6%
       
1. Reiknað sem: (stjórnunarkostnaður + framlag í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta – einskiptisliðir) / (heildarrekstrartekjur – einskiptisliðir)   
2. Stig 3, útlán til viðskiptavina, vergt bókfært virði      

 

 

 

 

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka

Við erum mjög sátt við arðsemi fjórða ársfjórðungs og var arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli 7,6% þátt fyrir erfiða stöðu víða í efnahagslífinu. Á árinu 2020 lækkaði kostnaður um 7,1% á sama tíma og aukning í útlánasafninu nam 11,9% og innlán jukust um 9,9%.Töluvert hefur verið fjallað um stöðu lánasafnsins og áhrif af COVID-19 en um 1.500 heimili og 650 fyrirtæki nýttu sér þau úrræði sem í boði voru og lauk í árslok 2020. Viðskiptavinir sem höfðu þörf fyrir lengra greiðsluhlé eru að mestu fyrirtæki í ferðaþjónustu og eru slík lán um 6% af lánasafni bankans í lok árs.

Hagnaður bankans á síðasta ári var 6,8 ma. kr. og á fjórða ársfjórðungi nam hagnaðurinn  3,5 ma. kr. Vaxta- og þóknanatekjur héldust stöðugar samanborið við sama tímabil á árinu áður. Einkar góður árangur náðist í verðbréfamiðlun og í fyrirtækjaráðgjöf. Fyrirtækjaráðgjöf lauk um 30 verkefnum á árinu og Íslandsbanki átti mestu viðskiptin í Kauphöllinni á árinu. Af einstökum verkefnum fyrirtækjaráðgjafar má helst nefna vel heppnað hlutafjárútboð Icelandair Group, sölu á Icelandair Hotels og sölu á Borgun, auk skulda- og hlutabréfaútboða fyrir skráðu fasteignafélögin. Íslandssjóðir skiluðu auknum hagnaði fimmta árið í röð og styrktu stöðu sína sem stærsti aðilinn á innlendum sjóðamarkaði með 35% markaðshlutdeild.

Heimurinn allur þurfti að aðlaga sig breyttum aðstæðum á árinu og bregðast við yfirstandandi COVID-19 heimsfaraldri. Stafræn sókn var mikil á síðasta ári samhliða breyttum aðstæðum og kynnti bankinn meðal annars nýtt app fyrir fyrirtæki og rafræna undirritunarlausn. Mikil aukning var í stafrænum dreifileiðum bankans en mikil áhersla var lögð á að veita persónulega þjónustu til þeirra sem ekki höfðu tök á að nýta sér þessar lausnir.

Við fundum það að aldrei hefur það verið jafn mikilvægt og í þessum aðstæðum að vera hreyfiafl til góðra verka og við erum stolt af því hlutverki. Bankinn heldur áfram að taka stór skref í sjálfbærnimálum en stefnt er að því að draga úr kolefnisspori tengdu rekstri bankans um 50% frá 2019 til 2024. Á árinu gaf bankinn jafnframt út stærstu sjálfbæru skuldabréfaútgáfu íslensks fyrirtækis frá upphafi og var rúmlega þreföld umframeftirspurn. Fjármögnunin verður að fullu nýtt í sjálfbær lán og fjárfestingar. Nú þegar hefur verið staðfest að bankinn hafi ráðstafað 25 milljörðum króna til sjálfbærra verkefna eins og nánar er fjallað um í áhrifaskýrslu sjálfbæra fjármálarammans sem kemur nú út samhliða árs- og sjálfbærniskýrslunni í fyrsta sinn. 

Við horfum björtum augum fram á veginn og höldum áfram að koma til móts við þarfir viðskiptavina með sveigjanleika að leiðarljósi. Þá sýnir sterk fjárhagsstaða bankans og aðstæður á mörkuðum  að tímasetningin til að hefja undirbúning að skráningu bankans á hlutabréfamarkað er góð.  Það eru spennandi tímar framundan.

Fjárfestatengsl

Símafundur með markaðsaðilum
Símafundur með markaðsaðilum vegna uppgjörs verður haldinn 11. febrúar kl. 9.30. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum, afkomu bankans og spurningum svarað. Fundurinn verður á ensku.

Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á: ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila fyrir fundinn.

Öll gögn tengd uppgjöri ásamt upplýsingum um fjárhagsdagatal og þögul tímabil má finna hér: https://www.islandsbanki.is/is/flokkur/bankinn/fjarfestatengsl

Nánari upplýsingar veita:

Póstlisti Íslandsbanka
Ef þú vilt gerast áskrifandi að kauphallarfréttum Íslandsbanka þá vinsamlegast skráðu þig hér: https://www.islandsbanki.is/is/grein/postlisti_ir 

Um Íslandsbanka
Íslandsbanki er leiðandi fjármálafyrirtæki á Íslandi með djúpstæðar rætur í íslenskri atvinnusögu sem nær yfir 145 ár. Markaðshlutdeild bankans var á bilinu 25-40% á innanlandsmarkaði. Með hlutverkið „saman erum við hreyfiafl til góðra verka svo að þú náir árangri” og framtíðarsýnina að vera #1 í þjónustu að leiðarljósi vinna þrjú viðskiptasvið þétt saman til þess að tryggja góð sambönd við viðskiptavini bankans.
Til að koma enn betur til móts við síbreytilegar þarfir viðskiptavina hefur Íslandsbanki þróað margvíslegar stafrænar lausnir svo sem app Íslandsbanka og Kass. Á sama tíma rekur bankinn skilvirkasta útibúanetið með 14 útibú staðsett á lykilstöðum um land allt. Íslandsbanki hefur BBB/A-2 lánshæfismat frá S&P Global Ratings. www.islandsbanki.is 

Fyrirvari
Framangreind fréttatilkynning gæti vísað til spár um framtíðarhorfur sem er háð áhættu- og óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði umtalsvert frábrugðinn því sem spáð er í þessari fréttatilkynningu. Íslandsbanki hf. hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari  fréttatilkynningu  þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út. Spár um framtíðarhorfur gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur og eru allar yfirlýsingar um framtíðarhorfur félagsins fullgildar í heild sinni með tilliti til þessa fyrirvara.


 

Viðhengi



2020 Sjalfbrniuppgjor UFS Islandsbanka_undirrita skjal.Pdf
2021.02.10_Frettatilkynning_4F20.pdf
2021.02.10_ISB_Investor Presentation_4Q20.pdf
Factsheet_IR ISL.pdf
Islandsbanki_2020_Financial Factbook.pdf
Islandsbanki hf. arsreikningur samstu 2020.pdf